Veiði hefst í Kleifarvatni 15. apríl!

Þrátt fyrir að jörð skelfi á Reykjanesinu og jarðskjálftamælar titri, þá hefst veiði í Kleifarvatni á morgun, 15. apríl.

Fyrstu dagar tímabilsins er jafnan eftirsóttir þar hjá þeim sem eru í urriðaleit, en vatnið er frægt fyrir sína vænu urriða. Það er svo ekki fyrr en það fer að hlýna að bleikjan fari að sýna sig.

Þetta er allt að fara í gang!

Góða skemmtun!

Með kveðju,

Veiðikortið

Ískalt upphaf veiðitímabilsins 2024!

Það var vægast sagt kalt um að lítast við Vífilsstaðavatn í morgun, en það var að mestu leyti ísilagt. Einnig var vindasamt þannig að þó svo það hefi bara verið -2° virkaði eins og það væri enn kaldara. Einhverjir veiðimenn tóku þó nokkur köst á þau vik sem voru íslaus.

Önnur vötn eru ísilögð enda mikið frost og vetrarharka verið um landið síðustu daga. Hringvegurinn er lokaður og nánast ófært á vegum á norðurlandi.

Við verðum því að standa þetta veðurfar af okkur og bíða eftir betri tíð.

Gleðilegt veiðitímabil!

Veiðikortið 2024 komið út!

Veiðikortið 2024 er komið út og því er hægt að lauma því í jólapakka landsmanna.

Með Veiðikortinu má veiða í 36 vatnasvæðum vítt og breitt um landið fyrir aðeins kr. 9.900.- og rétt er að benda á að mörg stéttarfélög niðurgreiða kortið til sinna félagsmanna.

Litlar breytingar verða á vatnasvæðum á milli ára, en Leirvogsvatn í Mosfellsbæ bætist við en á móti detta út vötnin í Breiðdal, Mjóavatn og Kleifarvatn.

Hæg er að kaupa Veiðikortið 2024 bæði rafrænt eða sem gamla góða plastkortið og fá það sent heim án aukakostnaðar.


Stórveiðimaðurinn Bjarki Bóasson prýðir forsíðu Veiðikortsins 2024, en hann hefur verið duglegur að veiði á vötnum Veiðikortsins síðustu ár. Hægt er að fletta bæklingnum rafrænt hér:

Með kveðju,

Veiðikortið

Urriðadans í Öxará 14. október kl. 14

Árlegur urriðadans undir leiðsögn Jóhannesar Sturlaugssonar verður laugardaginn 14. október klukkan 14:00. Allajafna stendur viðburðurinn yfir í 90-120 mínútur.

Jóhannes Sturlaugsson hjá rannsóknafyrirtækinu Laxfiskum mun fræða gesti Þjóðgarðsins á Þingvöllum um  urriðann í Þingvallavatni , lífshætti hans og almennan hag.

Kynningin hefst við bílastæði P5 þar sem Valhöll áður stóð. Þaðan er gengið meðfram ánni upp undir Drekkingarhyl þar sem risaurriðar og aðrir minni verða skoðaðir og fjallað um lífshætti þeirra.
Gestir fá tækifæri til að sjá risaurriðann í návígi og fræðast um þennan stórhöfðingja Þingvallavatns sem á hverju hausti gengur upp Öxará til hrygningar.

Hér er Jóhannes með einn höfðingjann í Öxará.

Haustið kallar og vötnin loka eitt af öðru!

Nú er haustið farið að gera vart við sig og vötnin farin að loka eitt af öðru.  Í dag er til að mynda síðasti veiðidagurinn í Berufjarðarvatni, Elliðavatni, Frostastaðavatni, Vífilsstaðavatni og Þingvallavatni. Við hvetjum veiðimenn sem ætla sér að nýta síðustu veiðidagana að skoða vel töfluna með opnunar- og lokunartíma vatnanna á veidikortid.is/opnunartimi. 

Veiðimenn geta nýtt helgina vel t.d. í Meðalfellsvatni og Hraunsfirði en ágætis veiði hefur verið þar síðustu daga.

Við viljum einni nota tækifærið og minna veiðimenn á að skrá afla frá í sumar hafi það gleymst en slóðina má finna hér:

 

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

 

Fornleifarannsóknir í Þingvallavatni

Kæru veiðimenn,

Ekki láta ykkur bregða þó þið verðið varir við bátaumferð, dróna og að hópur vísindamanna sé að störfum í þjóðgarðinum út næstu viku. Verið er að vinna við verkefni í neðanvatnsforleifarannsókn í Þingvallavatni.

Hér fyrir neðan er fréttin eins og hún kemur fram á heimasíðu Þingvallaþjóðgarðsins:

Fyrr í sumar var kynnt verkefni um neðanvatnsfornleifarannsókn í Þingvallavatni. Sú rannsókn er nú hafin og verður teymi erlendra neðansjávarfornleifafræðinga við störf í þjóðgarðinum út næstu viku. Munu þeir beita aðferðum fjarkönnunaraðferða eins og dróna, hliðarsónarskanna, myndmælingum og stýrðum köfunum. Búast má því við einhverri bátaumferð meðfram norðurstrandlengju Þingvallvatns og drónaflugi.

Landsig sigdalsins hefur verið um 4 metrar síðustu 1000 ár. Tilgangur verkefnisins er kanna fyrri notkun Þingvallvatns sem og fornleifar sem nú eru neðanvatns en stóðu áður á þurru landi.

Verkefnið er leitt af Dr. Kevin Martin. Frekari upplýsingar má fá með því að senda tölvupóst á torfi@thingvellir.is eða í síma 8480672.

Vatnaveiðin að komast á fullt!

Nú er einn besti tími vatnaveiðinnar að nálgast en hann er jafnan frá miðjum júní fram í ágúst. Þá er lífríkið komið á fullt og silungar synda nær landi í ætisleit.

Fín veiði hefur þó verið það sem af er sumri.  Elliðavatn hefur verið mjög áberandi enda búið að vera með eindæmum góð veiði þar, jafnt á urriða og boltableikjum.Við höfum heyrt af góðri veiði í Hlíðarvatni í Hnappadal, Hreðavatni, Baulárvallarvatni og Meðalfellsvatni. Óvenju rólegt hefur verið í Þingvallavatni í bleikjuveiðinni en þó einn og einn að fá vænar bleikjur þar og enn eru menn að setja í urriða þar. Sama má segja um Úlfljótsvatn, en þar hafa einnig verið að veiðast vænar bleikjur.

Vötnin fyrir norðan hafa einnig verið að gefa góða veiði en við höfum haft fréttir af fínni veiði í Ljósavatni, Vestmannsvatni og líka Svínavatni.

Við hvetjum veiðimenn til að fylla út veiðiskráningarformið okkar á netinu, en það má finna á veidikortid.is/veidiskraning.

Góða skemmtun í vötnunum í sumar!

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

 

 

Elliðavatn og Þingvallavatn opna á morgun!

Sumar er á næsta leiti. Margir veiðimenn byrja veiðitímabilið þegar sumardagurinn fyrsti gengur í garð, en þá hefst veiðitímabilið í Elliðavatnið ár hvert. Þingvallavatn opnar 20. apríl ár hvert og það vill svo skemmtilega til að það er einnig sumardagurinn fyrsti, þannig að bæði þessi vötn opna því fyrir veiði á morgun.

Elliðavatn:

Það hefur verið hlýtt síðustu daga og vatnið eru tilbúið. Veðurspáin er góð og hafa fiskar sést í vatninu.

Á sumardaginn fyrsta hefst veiðitímabilið í Elliðavatni. Af því tilefni bjóða Veiðikortið og Skógræktarfélag Reykjavíkur til veiðigleði kl. 10-14 fimmtudaginn 20. apríl við Elliðavatnsbæinn. Caddisbræðurnir Hrafn og Ólafur Ágúst ásamt Ólafi Tómasi í Dagbók Urriða veita leiðbeiningar og góð ráð og Skógræktarfélagið býður upp á gönguferð. Hressing í boði í tilefni dagsins – Allir velkomnir!
Dagskrá við Elliðavatnsbæinn:
Kl. 10 -14 Aðstoð við veiðimenn, leiðbeiningar og góð ráð er varða veiði í Elliðavatni.
Kl. 11 Caddisbræður og Ólafur Tómas – örnámskeið og fyrirlestur í Elliðavatnsbænum um vatnaveiði með áherslu á Elliðavatn.
Kl. 13 – 14 Gönguferð frá Elliðavatnsbænum um Heimaás.
Veiðimenn og unnendur Elliðavatns eru hvattir til að mæta og fagna komu veiðisumarsins. Þetta er einnig kjörið tækifæri fyrir nýliða til að kynna sér veiði í Elliðavatni. Veiðimenn geta keypt Veiðikortið eða dagsleyfi á staðnum.
Þú getur skoða viðburðinn á Facebook með því að smella hér:
Þingvallavatn:

Í Þingvallavatni hefur urriðaveiðin farið ágætlega af stað á þeim stöðum í vatninu sem hafa þegar hafið veiðar, þannig að veiðimenn ættu að geta farið með góðar væntingar austur í Þingvallasveit á morgun.

Við hvetjum veiðimenn til að senda okkur fréttir á morgun um ganga mála.

Athugið að gróður getur verið mjög viðkvæmur á vorin og því bera að gæta að viðkvæmum göngustígum.

 

Þeir sem eru með Rafræn Veiðikort – munið eftir að prenta út mynd af kortinu til að hafa í mælaborði birfreiðar til að létta lífið hjá veiðieftirlitinu.  Hér fyrir neðan er mynd af kortinu sem rafrænir korthafar geta nálgast með því að fylgja QR kóða tölvupóstinum. Ef einhver finnur ekki þessa mynd af kortinu sínu má gjarnan hafa samband við okkur með t-pósti.

 

Með sumarkveðju,

Veiðikortið

Kleifarvatn – veiði hófst í morgun!

Í morgun hófst veiði í Kleifarvatni á Reykjanesi. Það er fallegur dagur og eflaust margir sem ætla sér að kíkja í vatnið í dag enda veðrið fallegt. Í vatninu er bæði falleg bleikja og von á vænum urriðum. Þeir sem sigta á urriðann mæta gjarnan seinnipartinn eða snemma á morgnana.

Við minnum veiðimenn á að skrá afla í veiðibók, en hægt er að skrá afla á netinu með því að fara á https://veidikortid.is/veidiskraning/ og þar er hægt að senda inn myndir af fiskum með skráningu.

Fréttir og myndir frá opnunardeginum væru vel þegnar á netfangið veidikortid@veidikortid.is

Einnig minnum við á að veiði er hafin í Hraunsfirði og Vífilsstaðavatni en veiðimenn hafa verið að fá ágæta veiði þar síðustu daga þrátt fyrir að hafa farið seint af stað. Meðalfellsvatn opnar svo 19.4 og Þingvallavatn og Elliðavatn 20. apríl sem er jafnframt sumardagurinn fyrsti.

Þeir sem ekki eru komnir með Veiðikortið geta keypt kortið rafrænt og fengið það beint í símann.

Einnig er hægt að kaupa stakan dag í vatnið með því að smella hér.

Með veiðikveðju,

Veiðikortið.

Veiðitímabilið er handan við hornið

Þrátt fyrir óvenju kalt vor virðast vera hlýindi í kortunum fyrir næstu helgi.

Við munum fylgjast vel með hvort að ísinn á Vífilsstaðavatni muni hopa í tíma þannig að veiðimenn geti opnað tímabilið formlega næsta laugardag sem er 1. apríl.

Það eru hverfandi líkur á að önnur vötn verði tilbúin en vorið er á næsta leiti og veiðimenn þurfa vonandi ekki að bíða lengi eftir að vatnveiðin fari í gang.

 

Með kveðju,

Veiðikortið